22.9.2010 | 21:56
Pílagrímur í Mekka
Var að ljúka við lestur ferðasögu Ninu Aisha Rasmussen sem segir frá ferð sinni til Mekka í desembermánuði 2006, eða um sama leyti og Saddam Hussein var tekinn af lífi í Írak. Nina er fædd 1942, starfaði sem leikari á yngri árum en hefur ferðast mikið með manni sínum Hjalte Tin og einnig skrifað ferðasögur með honum.
Hún lýsir ferð sinni sem múslimur meðal kvenna og karla um þennan þekkta stað, þar sem múslimir koma saman á hverju ári til að minnast þess að Hagar, reikaði á þessum slóðum með Ísmael son sinn, bæði burtrekin úr húsum Abrahams og Söru sem nýlega höfðu eignast Ísak, forföður allra Gyðinga.
Múslimir telja að Abraham og Ísmael hafi svo síðar reist Kabaen sem öllum múslimum er skylt að reyna að komast til og ganga 7 hringi í kringum í 3 skipti og hljóta við það sérstaka upplifun og blessun. Í leiðinni skoða múslimir svo brunninn þar sem Hagar fann vatn handa sér og syni sínum í eyðimörkinni. Flesir múslimir kaupa svo vatn úr þessum brunni Zamzam og taka með sér til síns heimalands.
Hér leyfi ég mér svo að birta smá þýðingu úr þessari ágætu ferðasögu:
"Ég sný við og finn stað utan við moskuna, þar sem búið er að rúlla grænum fíltteppum út. Þrátt fyrir hinn kalda morgunn er ég ánægð með að vera úti og sjá dagrenninguna. Næturkuldinn hangir stöðugt í loftinu og öllum er kalt. Nokkrir Afríkubúar sofa enn á sínum bænateppum. Einn hefur tekið með sér kodda.
Konurnar við hlið mér eru frá Kasakstan, Tyrklandi, Bosníu og eyjunni Kalimantan í Indónesíu. Indónesía er stærst allra múslimsku landanna, með yfir 200 milljónir íbúa, svo það er eðlilegt að margir þaðan séu á hajj. Sólin glóir við sjóndeildarhring að baki háhýsanna. Um leið og hún stígur upp verður hlýrra.
Þegar við komum aftur til hótelherbergisins, hættir hin kvefaða Aziza föstunni sinni og byrjar aftur að borða. Hún hámar í sig þessu flata arabíska brauði sem ég keypti og brýtur það í smá bita svo það verði auðveldara að vefja það utan um litla ostbitana. Hún molar hratt hvítan ost í smábita og af einstakri fórnfýsi býr til sykurbættan mauk úr auberginer og ólífum með sínum ísköldu höndum. Mín hikandi mótmæli hafa engin áhrif. Kannski hefur hún aldrei heyrt minnst á veirur. Ég held ekki. Hún bara gerir eins og hún er vön. Þegar ég hef borðað þennan sæta rétt, löðra fingur mínir í olíu. Ég næ mér í brauðbita og þurrka fingurna með honum. Fauziya, sem heldur að ég ætli að henda brauðinu á eftir, hrópar - Haram! Bannað! Ég þrýsti smá feta ost inn í brauðbitann og sting honum svo upp í mig. Sem barn lærði ég að það er synd að henda mat. Í dag hugsa ég að það hljóti að þjóna einhverjum tilgangi að korninu sé sáð, skorið upp, úr því bakað brauð og síðan selt. Og það hlýtur að vera ætlast til þess að brauðið sé borðað en ekki hent í ruslatunnuna.
Opnunarbænina hef ég ákveðið að læra utanað áður en við komum til Mekka. En hver stund sólarhringsins er án hvíldar og næðis, þannig að hvorki ég eða aðrir geta hvílst milli bænanna. Viðstöðulaust er gengið um, hrópað og bankað á dyr. Og ef það kemst á augnabliks ró, minnir rafknúin dyrabjalla lyftunnar okkur á hugsunarlausa nútíma uppfinningu."
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.