Að vera kona í Jemen

Min arabiske rejseEftir lestur bókarinnar Min arabiske rejse, eftir Ninu Rasmussen, langar mig að birta lesendum smá þýðingu úr henni sem lýsir nokkuð hlutskipti kvenna í þessu landi sem heltekið er af "menningu" múslima á fremur afturhaldssaman máta.

Nina fer alein í þessa ferð um 67 ára gömul í þeim tilgangi að kynna sér siðvenjur Jemena og hvernig kona frá Danmörku upplifir þær frá sjónarhóli konu.

Ég leyfi mér að birta hér tvo lauslega þýdda úrdrætti sem lýsa nokkuð því sem hún upplifir:

"Þeir höfðu rétt fyrir sér á hótelinu. Það hefði verið nóg að mæta kl. 9 á leigubílastöðina. Við lögreglueftirlitið fyrir utan borgina Taiz varð ég að sýna ferðaheimild mína áður en bíllinn fékk að halda áfram. Það var í fyrsta sinn sem hæðst var að mér í leigubíl. Að ég sat frammí við hlið ókunnugs manns kom upp um mig. Það myndi jemensk kona aldrei gera. Konur sitja alltaf sem aftast í bíl. Hvað aldur snertir hefði maðurinn getað verið eiginmaður minn en hrukkót andlit hans og gamall gauðslitinn jakki stungu í stúf við dýran kufl úr sléttu silki með bláum útsaumi og glitrandi smásteinum á ermunum. Jemenar taka eftir þannig löguðu. Aumingja maðurinn naut þess greinilega ekki að sitja svona við hliðina á mér. Hann vatt upp á sig, iðaði og reyndi að gera sig eins fyrirferðalítinn og hann mögulega gat. Það var öðruvísi en í Íran þar sem allir höfðu gaman af í þau fáu skipti sem karl og kona þurftu að deila með sér framsæti. Hér í Jemen er kynjaskiptingin svo rótföst að flestir karlmenn kæra sig ekkert um að vera í návist kvenna. Í samræmi við hjátrú múslima er kvenkyn hættulegt fyrir karlmenn. Í augum þeirra trúuðustu er aðlaðandi kona aðeins tákn þjáningar og söknuðar. Það hjálpar talsvert að halda konum inni eða hafa þær huldar mörgum kuflum, slæðum og klútum. Kona er ekkert annað en eitthvað sem fæðir karlinum börn og gætir húss og heimilis. Allt sitt líf má hún aldrei kynnast öðrum karlmanni en þeim sem hún er gift. Mig grunar að það sé vegna þess að karlarnir eru ömurlegir elskendur sem eru hræddir við samanburð, en það er bara mín ágiskun. Aftur á móti held ég að konur bæti sér upp skort á kynlífsreynslu með því að tala meira óþvingað sín á milli um sína menn en við gerum hér á Vesturlöndum."

Og áfram heldur Nina að lýsa því sem kemur henni fyrir sjónir:

"Á þjóðhátíðardaginn eru hótel í Aden sem liggja að ströndinni full af glöðum Jemenum. Það er eingöngu vegna velvilja starfsfólksins að ég fæ myglulegt kjallaraherbergi á Elephant Beach Resort. En hvað skaðar það þegar hótelið hefur tvær sundlaugar og baðströnd? Ég hef brugðið mér í bikini og er á leið út að sundlaugunum sveipuð kjólnum. Þegar ég kem að laugunum sé ég að það eru drengir í annarri lauginni en karlmenn í hinni. Í smá tíma læðupokast ég með handklæði hótelsins yfir öxlum mér þangað til það rennur upp fyrir mér að ég get hvorki notað laugarnar né ströndina. Úff, ég sem hef borgað jafn mikið og karlmennirnir fyrir hótelgistinguna. En að láta sér detta í hug að fara í sömu laug og karlmenn er ósiðlegt og að vera í bikini er líkt og að vera nakin. Inni í stórum hringlaga sóltjöldum á ströndinni sitja fjölskyldurnar með matarkörfur sínar og það lítur út fyrir það þær haldi þar til allan daginn. Það virkar framandi að horfa á konurnar í kuflum við vatnsborðið. Þær vaða í mesta lagi upp að hnjám og þá aðeins til að aðstoða börnin. Ég læt það ógert að baða mig, það yrði bara óþægilegt að stíga upp úr vatninu í blautum kuflinum útbíuðum í sandi.

Hér er of heitt til að vera í sólinni, get ekki verið í bikini á ströndinni, sóltjöldin eru upptekin, sundlaugarnar óaðgengilegar, svo hvað get ég gert af mér? Af hverju er svona neyðarlegt að vera kona? Þjónarnir hafa ekki tíma til að ganga um beina í garðinum, svo ég sit bara á milli drynjandi hátalara í pálmatrjánum sem ýmist gefa frá sér hljóð skrúðgöngumarsa eða lúðrablásturs.

Á herberginu sé ég Al-Jazeera hálfa nóttina. Ég hef þörf fyrir smá móteitur. Það hefur verið jarðskjálfti í Kína þar sem vantar milljónir tjalda. Stjórn Afghanistans hefur ekkert taumhald á stríðsherrunum í dreifbýlinu. Talibanar eru í sókn, á meðan Ísraelsmenn vilja að Sýrlendingar rjúfi samband við Hamas samtökin. Íranir er stöðugt á lista Bandaríkjamanna sem hryðjuverkamenn. Á Gólanhæðum....... Eftir allar þessar hörmungar kann ég aftur að meta það hve ótrúlega heppin, rík og hamingjusöm ég er, sem Danskur ríkisborgari og ferðalangur."

Eftir lestur fyrri bókar Ninu, Pílagrímur í Mekka og þeirrar ofangreindu, hefur mér opnast sjónarhorn kvenna á því sem við köllum slör, slæður, kufla, búrkur o.s.frv. sem virðist órjúfanlegur þáttur í menningu þeirra þjóða sem kenna sig við Islam.

Í huga mér hafa vaknað ýmsar spurningar um skringilegheit mannskepnunnar í þessum efnum. Af hverju erum við sífellt að merkja okkur eftir því hvað við aðhyllumst? Af hverju viljum við merkja okkur sem kommúnista, kapítalista, Frammara, Valsara, kristna, Gyðinga, Mormóna, JC menn, Frímúrara o.s.frv?

Sjáum við það kannski í framtíðinni utan á hverjum og einum hvaða matvörur viðkomandi lætur inn fyrir varir sínar? Eða hvaða drykkjarvörur viðkomandi aðhyllist? Gera svona merkilegheit okkur litríkari en ella sem mannverur? Eða eru svona skringilegheit ekki bara merki um að eitthvað alvarlegt sé að mannskepnunni sem einni af dýrategundum jarðarinnar?

Hvað segja þeir merkilegu? Alla vega finnst mér þetta stórmerkilegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka þér fyrir - þetta er áhugavert og gott að fá þessa sýn inn í umræðuna.

Jóhanna Magnúsdóttir, 25.11.2010 kl. 02:00

2 Smámynd: Sigurður Rósant

Mér finnst hún Nina Rasmussen, sem fyrrum leikkona,  komast mjög nálægt því hvernig konur geta upplifað þá innilokun og niðurlægingu sem því fylgir að ganga stöðugt í kuflum og kjólum sem hylja að mestu nakið hold þeirra.

Vinur hennar bauð henni eitt sinn út að borða, en veitingasalurinn var svona til hliðar við aðal salinn, þar sem tjöld afmörkuðu borð og að auki þurfti kona ætíð að hylja andlit sitt þegar þjónn gægðist inn til að ganga um beina.

En svona 'verða' múslimir að haga sér hér á Vesturlöndum, því allir fylgjast með öllum. Hins vegar er ýmislegt sem bendir til þess að 'meðlimir' safnaðanna séu að fjarlægjast þessar siðvenjur. Má þar nefna 'moskusókn' þeirra. Hún er miklu minni en af er látið. Ég fullyrði að hún sé vart meiri en 2% á svokallaðri 'föstudagsbæn' sem má líkja við 'kirkjusókn' kristinna á sunnudögum. Sem sagt, múslimir játa trú sína í orði, borga samviskusamlega félagsgjöld og taka þátt í uppbyggingu bænahúsa og rekstri þeirra, en hjarta þeirra snýr að Vestrænni menningu 'á laun'. Í mínum augum er þetta aðeins spurning um tíma, hvenær múslimskar konur brjóta af sér þessa hlekki sem konur á Vesturlöndum gerðu á síðustu öld.

Sigurður Rósant, 26.11.2010 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband