24.4.2011 | 19:18
Fjölgun trúfélaga frá 1991 - 2011 á Íslandi
Trúfélögum hefur fjölgað úr 14 í 36 síðustu 20 árin. Kristnum trúfélögum hefur fjölgað úr 12 í 28 á sama tíma.
Athygli vekur að hinum eldri söfnuðum hefur vaxið fiskur um hrygg að höfðatölu eða um rúm 20.700 á meðan fjöldi meðlima í 22 þeirra nýrri safnaða er aðeins tæp 3.500.
Eins og sjá má af þessari samantekt, er meðlimum Þjóðkirkjunnar á Íslandi að fækka all verulega eða um 1.166 að höfðatölu síðustu 10 árin og eru nú 77,64% þjóðarinnar eða rétt rúmir 3 af hverjum 4.
Nokkrir aðrir kristnir söfnuðir eiga líka í erfiðleikum eins og Sjöunda Dags Aðventistar en þeim hefur fækkað frá 1991 úr 769 niður í 723 árið 2001 en aðeins bætt við sig í lok ársins 2010 í 760.
Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu, eða Mormónasöfnuður, virðist hafa náð hámarki hér á landi.
Vottar Jehóva virðast bæta við sig hægt og bítandi og hafa betur en Krossinn og Vegurinn og ná trúlega S.D. Aðventisum að nokkrum árum liðnum.
Fríkirkjan Kefas og Íslenska Kristskirkjan hafa einnig bætt við sig síðustu 10 árin og ómögulegt að spá um framtíð þeirra, en mig grunar að fjölgun verði ekki veruleg næstu árin.
Catch The Fire (CTF) er einn af nýjustu kristnu söfnuðunum sem hefur m.a. það að markmiði að vingast við múslimi. Spennandi verður að fylgjast með árangri og vexti þessa safnaðar.
Meðlimir í Búddískum söfnuðum eru orðnir 1.163 sem segir nokkuð um sinnaskipti gagnvart skilgreiningu á guðdómnum og hve auðveldlega Íslendingar venjast siðum Búddista.
Meðlimir í múslimskum söfnuðum eru nú um 644, þ.e. rúmlega hálfdrættingar á við Búddíska söfnuði. Menningarsetur múslima á Íslandi telja nú 274 sálir en Félag múslima á Íslandi telja nú 370 sálir.
Rússar og Serbar eru um 645 sem halda enn í trú og siði sinna upprunalanda.
Hópur sá sem Hagstofa Íslands kallar "Önnur trúfélög og ótilgreint" hefur stækkað úr 1.505 í 18.869 síðustu 20 árin og eru um 5,93% þjóðarinnar, en hvernig hann er samansettur vita trúlega fáir.
Utan allra trúfélaga eru nú um 14.091, um 4,42% þjóðarinnar, eða þriðji stærsti hópurinn skv. þessum tölum.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Ansi loðinn þessi liður "Önnur trúfélög og óskilgreint". Væri sannarlega gaman að fá nánari skilgreiningu á þessu. Þreföldun á þessum lið á 10 árum vekur spurningar.
Ég sé líka að Kaþólska kirkjan stekkur upp um ríflega helming á sama tíma og finnst mér það með algerum ólíkindum. Eru menn að kokka bókhaldið þarna? Hvernig og hvenær átti þetta sér stað? Ég vildi fá nánari upplýsingar um þetta.
Þarna eru á meðal "söfnuðir" sem hafa 3 og 7 meðlimi og Orð lífsins er á lista þótt það sé augljóslega non existent.
Athyglisverð yfirferð hjá þér. Takk fyrir það.
Jón Steinar Ragnarsson, 24.4.2011 kl. 22:38
Já, ég hélt nú að maður gæti ekki skráð sig í eitthvað "ótilgreint", en það eru kannski margir söfnuðir sem geta starfað "í felum" til þess að sleppa við umfjöllun, eins og Gyðingar sem hljóta að vera einhverjir hér á landi og afþakka þá þessa innheimtu sóknargjalda af hálfu skattyfirvalda.
En kaþólskum hefur kannski fjölgað hér á landi vegna trúarofsókna eða atvinnuleysis í upprunalöndum þeirra?
Söfnuður með 3 eða 7 meðlimi segir manni að ekki þarf mikið til að stofna trúfélag með öllum þeim skilyrðum sem löggjafinn setur.
Söfnuðirnir Orð lífsins og Kletturinn eru greinilega ekki starfandi lengur. Trúlega einhver leti í þeim á Hagstofunni að smella á Delete hnappinn.
En ég kann ekki við að trúfélög komist upp með það að heita algjörlega erlendum nöfnum eins og Catch The Fire. Betra væri t.d. Taktu kyndilinn, Taktu - aktu, Gríptu - hlauptu.
Það er kominn einhver kæruleysisbragur yfir þessu öllu saman.
Sigurður Rósant, 25.4.2011 kl. 09:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.