3.4.2012 | 07:35
21 spora kerfið
Nú í dymbilvikunni er ágætt að velta því fyrir sér hvers vegna við erum trúuð og hvort við getum ekki gert eitthvað í því til að losna við þá trúarfíkn.
21 spora kerfið
1. Ég viðurkenni fyrir sjálfum mér að ég er haldinn trúarfíkn.
2. Ég viðurkenni fyrir öðrum að ég er haldinn trúarfíkn.
3. Ég geri mér grein fyrir að trúarfíkn mín hefur dregið úr hæfileika mínum til að hugsa sjálfstætt, hvað varðar framvindu lífs míns.
4. Ég geri mér grein fyrir að trúarfíkn mín leiðir til þess að ég reyni að hafa áhrif á börn mín og annarra til að ánetjast trúarfíkn.
5. Ég reyni til að byrja með að hugsa um að hugmyndir um guð eða guði sem settar hafa verið fram í árhundruði og árþúsundir eru einungis mannanna verk.
6. Ég reyni að átta mig á því að líf er til án trúarfíknar.
7. Ég rifja upp af og til hversu lífið er undursamlegt og tilurð þess ráðgáta sem menn eru sífellt að reyna að leysa.
8. Ég rifja upp hversu tilurð jarðar, tungls, sólar og allra þeirra sóla sem við sjáum og köllum stjörnur, ásamt öðrum plánetum, er spennandi ráðgáta fyrir manninn til að leysa á mínum tíma og í framtíðinni.
9. Til að losna við trúarfíkn verð ég að temja mér að hugsa öðru vísi en ég hef gert áður.
10. Ég ven mig af þeim óvana að segja Guð hjálpi þér.
11. Ég ven mig af þeim óvana að spyrja aðra Hvenær á að skíra barnið?
12. Ég ven mig af þeim óvana að hugsa um að Guð hjálpi mér.
13. Ég reyni að gefa börnum mínum nöfn sem ekki byrja á guðaheitum eða eru nöfn á fornum guðum, svo sem Þór, Sif, Freyja, Óðinn, Guð, Krist, Ægir o.s.frv.
14. Ég forðast að spyrja börn Hvenær verður þú fermd/fermdur?
15. Ég forðast að bera eða hampa trúartáknum, svo sem með skrautmunum eða klæðnaði.
16. Ég reyni að leiðbeina fólki höldnu trúarfíkn eins og ég til að átta sig á alvarleika trúarfíknar.
17. Ég tel þó rétt, til að halda friðinn, innan vina og fjölskyldu, að þiggja boð í skírnar-, umskurðar-, fermingar-, giftingar- og greftrunarathafnir þeirra sem eru mér nánastir.
18. Ég reyni að forðast virka þátttöku í athöfnum trúaðra, eins og sálmasöng, bænastundum og notkun helgitákna.
19. Ég lít á alla trúaða sem hjálparþurfi en ekki sem óvini.
20. Ég geri þó greinarmun á trúuðum og ofstækistrúuðum.
21. Ég geri mér grein fyrir að lífið er ekki bara leikur, heldur líka dans á rósum.
Gleðilega framhjágöngu (páska).
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 19:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.