Trú - frelsi/helsi - hugvekja á Aðventu.

Þessi hugmynd umboðsmanns barna virðist í fljótu bragði skref í rétta átt hvað varðar rétt barna og ungmenna, til að segja til um eigin trú eða sannfæringu. Ég hef lengi velt þessum hlutum fyrir mér og síðustu árin og misserin hef ég verið æ meir sannfærður um, að slíkt skref til handa börnum eins trúsafnaðar af mörgum hér á landi, sé alls ekki í þágu allra barna sem búa á Íslandi né í öðrum löndum þessa heims.

Við höfum hér á landi börn sem eru leidd/keypt/skikkuð til að taka þátt í trúarlegum athöfnum foreldra sinna allt frá blautu barnsbeini og svo í framhaldi, allt sitt líf undir þrýstingi frá samtrúuðum. Gyðingar laða/kaupa/skikka börn sín til að læra sem mest um Torah (Mósebækurnar). Muslimir láta börn sín þylja Kóraninn á arabísku um allan heim. Kaþólskir fá börn sín til að taka þátt í alls kyns klúbba- eða félagamyndun, í því skyni að styrkja böndin innan trúarinnar. Svipaða stefnu hafa svo Evangelíum Lútherskir, Aðventistar, Vottar Jehóva, Mormónar, Hvítasunnumenn, Ásatrúar, Siðmennt og fleiri trúar- og lífsskoðunarhópar.

Börn Gyðinga að skoða Torah.

Börn múslima að lesa Kóraninn.Börn kaþólskra í klúbbastarfi.

Vart þarf að sýna fleiri myndir af, hvernig foreldrar laða/kaupa/skikka börn sín til að læra um trúarhugmyndir foreldra þeirra, klæðast trúarflíkum, iðka bænir og siði þá er fylgja viðkomandi trú. En hversu sniðugt er svona uppeldi í nútíma samfélögum þar sem markmiðið er að læra um og virða trú og siði allra, hvernig svo sem þeim er háttað?

Er það ávísun á bætt samskipti á vinnustöðum, ef hver og einn þarf að sinna sinni trú þegar siðurinn kallar? 

Er nóg að ákvæði stjórnarskrárinnar (Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.) leggi blessun sína yfir svo til hvers kyns trúfélög án þess að huga að frelsi barna til að móta sín eigin viðhorf á æsku- og ungdómsárunum?

Hvert leiðir þessi þróun okkur? Erum við fær um að læra um og virða trú, trúarvenjur eða einstrengislega siði hverra annarra í það óendanlega?

Hvað kostar slík tilhliðrunarsemi samfélögin, sveitarfélögin og önnur minni félög sem taka ákvarðanir um það sem sameiginlegt er hverju sinni?

Mín skoðun er sú, að við eigum að fara róttækari leiðir í þessum málum. Skerða frelsi foreldra til að ráða trú barna sinna. Íslendingar ættu að vera frumkvöðlar á þessu sviði og vera öðrum þjóðfélögum til fyrirmyndar. Við erum í góðri aðstöðu til þess einmitt núna á meðan við horfum upp á afleiðingar of mikillar eftirlátssemi nágrannaþjóða okkar, við áður óþekkta strauma trúar og siða sem kosta nágrannafélögin ærin útgjöld og fórnir.

En hvað með trú og trúariðkun fullorðinna? Ég tel að fullorðnir geti áfram stundað sína trú á laun, líkt og Ásatrúarmönnum var leyfilegt eftir kristnitökuna. Fullorðnir geta komið saman, beðið, sungið og hugleitt, án þess að blanda börnum sínum og ungmennum í venjur sínar. Er það ekki ásættanlegur valkostur fyrir hvaða trúaðan mann sem er? Við getum látið það flokkast undir allsherjarreglu eins og kveðið er á um í núgildandi stjórnarskrá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband