Barnaníð undir verndarvæng Sjöunda Dags Aðventista

Í Kastljósi í kvöld 7. jan 2013, horfði ég og hlustaði á frásagnir og lýsingar á kynferðislegri misnotkun Karls Vignis Þorsteinssonar til allt að 40 ára. Í kjölfarið las ég svo frásögn Guðrúnu Sverrisdóttur af kynnum sínum af hjónunum Hönnu Halldórsdóttur og Kristjáni Friðbergssyni, fyrst árið 1965, en þau veittu uppeldisheimilinu á Kumbaravogi forstöðu.

Þessi frétt rifjaði upp hjá mér það uppeldi sem ég hlaut tvo vetur hjá S.D.Aðventistum að Hlíðardalsskóla árin 1965 - 1967. Sumt var áþekkt, eins og vinnuskyldan, en hún var 2 klst á dag en 4 klst á sunnudögum, trúlega til að leggja áherslu á að sá dagur var ekki hvíldardagur sá sem Guð þeirra skipaði í Mósebókunum. Við fengum þó greiddar þær vinnustundir á einhverjum mjög svo lágum texta, mig minnir 50 kr á klst eða svo. Til frádráttar þessu kom þó, sektir og afbrot sem hægt var að klína á okkur yfir veturinn og voru starfsmenn skólans nokkuð samtaka um slíkt gagnvart okkur. Frásögn Elvars Jakobssonar kemur fram í grein Guðrúnar Sverrisdóttur og er á þessa leið:

„Á Kumbaravogi störfuðum við krakkarnir við hænsnarækt (ég var ekki nema 11 ára þegar ég var látinn snúa hænur úr hálslið), rófurækt, kartöflurækt og ýmis önnur tilfallandi garðyrkju- og bústörf. Við byggðum þar að auki tvö stór hús með mörgum herbergjum á þremur árum, sem í dag eru notuð sem húsnæði fyrir dvalar- og hjúkrunarheimilið Kumbaravog. Við smíðuðum, einangruðum með glerull, skófum timbur, lögðum tjörupappa, negldum þakplötur og gengum í öll þau störf sem okkur var sagt að vinna, sama hvernig viðraði. Til viðbótar stóðum við vaktir við saumavélarnar í poka- og ábreiðuverksmiðjunni. Ef við vorum ekki að vinna fyrir forstöðumanninn við bústörf, byggingarvinnu eða framleiðslu sendi hann okkur á aðra bæi til að vinna sambærileg störf. Allt þetta gerðum við án þess að fá nokkurn tíma borgaða eina einustu krónu. Forstöðumaðurinn fékk hins vegar borgað með okkur frá Reykjavíkurborg, fékk greiðslur af fjárlögum, auk þess að fá greiðslur frá sveitungum sínum þegar hann sendi okkur í vinnu til þeirra. Um helgar var okkur ekið út um allt Suðurland til að betla pening fyrir einhverja góðgerðarstarfsemi. Ég á erfitt með að trúa því að allt það sem við krakkarnir söfnuðum á þeim ferðum hafi farið eitthvað annað en í vasa forstöðumannsins. Það var ekki nóg að borgin greiddi með okkur fullt gjald heldur gerði forstöðumaðurinn þar að auki stöðugt kröfur á föður minn um greiðslu fyrir skólagjöldum, fatnaði og öðru sem hann tíndi til. Að auki sendi hann reglulega greinar í dagblöð á þessum tíma og bað um styrk og aðstoð frá almenningi til að sjá barnaskaranum farborða. Þrátt fyrir góð viðbrögð fengum við fósturbörnin aldrei nokkurn tíma ný föt eða nýja skó. Við gengum allan tímann í fatnaði frá Hjálpræðishernum eða öðrum samtökum sem réttu honum hjálparhönd.“ 

Fyrir mér rifjast upp þau verk sem við nemendur inntum af hendi. Þrifum og skúruðum allt skólahúsnæði og heimavist. Vöskuðum upp í eldhúsinu eftir alla matar- og kaffitíma. Gerðum við borð og stóla skólans, jafnframt venjulegu smíðanámi. Grófum skurði vegna fyrirhugaðra hitaveitulagna í öll íbúðarhús staðarins. Steyptum gangstéttarhellur sem lagðar voru á svæðið og jafnvel seldar af staðnum. Sáum um að gefa, mjólka kýr og moka flór í fjósi bæjar sem tilheyrði jörðinni.

Vinna þessi þótti mér þroskandi og gera okkur á 14. - 17. aldri ekkert nema gott. En í dag eru breyttir tímar og slík vinna myndi trúlega teljast á mörkum þess að teljast barnaþrælkun. Hins vegar þær lýsingar sem hér að ofan eru frá vinnu barnanna á Kumbaravogi á sama tíma. Það hefði í dag verið flokkað sem barnaþrælkun. En, ekki endilega á þessum tímum. Ég var sjálfur sendur í sveit á sumrin frá 10 ára aldri og dvaldi einn vetur í sveit, þar sem skólahald var einungis 2 vikur og svo frí næstu 2 vikur. Alla vega til sveita þótti vinna fyrir börn mjög þroskandi, þó hún teljist það alls ekki í dag.

Í þessum lýsingum finnst mér þó eitt vanta. Trúarinnrætingin. Var hún ekki einhver, samhliða þessari meðferð?

Á Hlíðardalsskóla var trúarinnræting stunduð markvisst. Nemendur urðu að haga sér eftir trúarreglum S.D.Aðventista í sem flestum efnum. Við urðum að neita okkur um að spila á venjuleg spil. Við fengum ekki að tefla. Stúlkur máttu ekki bera hringa eða skrautmuni á sér. Þær máttu heldur ekki lita hár sitt, sem þá var byrjað að færast í tísku á dögum Bítlanna og Rolling Stones. Við máttum ekki hlusta á lög þessara hljómsveita.

Svínakjöt, blóðmör, hrossakjöt og fleiri "óhreinar" fæðutegundir voru ekki á boðstólum. Okkur var gert að mæta "á sal" til morgunbænahalds. Alltaf var farið með borðbæn áður en matast var í borðstofu. Á föstudagskvöldum, þ.e. eftir sólarlag, þurftum við að mæta á eins konar guðsþjónustu og svo aftur á laugardaginn í morgunmessu. Á laugardagskvöldum voru einatt komnir erlendir gestir sem fluttu þrumandi trúarræður sem þýddar voru jafnharðan snilldarlega af kennurum eða skólastjóra. Að auki voru skipulagðar bænavikur í setustofum sem stóðu yfir í nokkrar vikur a.m.k. hálf tíma að kvöldi til. Krupu nemendur þá á hné, krepptu hnefa, lokuðu augum og biðu upphátt fyrir ættingjum, sjálfum sér og öðrum.

Öll þessi starfssemi var trúlega studd af ríkinu, skólagjöldum og svo ódýru vinnuafli nemenda. Nemendur voru þarna um 80 í fjórum aldursflokkum.

Það má því segja að peningagræðgi S.D.Aðventista skíni í gegnum fagnaðarboðskap þeirra um ríkið og vissa Himnaríkisvist ef haldinn er heilagur sjöundi dagur vikunnar, laugardagurinn. Segja má að embættismenn ríkisins og sprenglærðir sálfræðingar hafi legið kylliflatir fyrir andakt Aðventistanna og viljað allt fyrir þá gera eins og lesa má í eftirfarandi texta:

Tveimur árum eftir að starfsemin hófst var ráðist í viðbótarbyggingu við gamla húsið. Sumarið 1967 skrifar Símon Jóh. Ágústsson hjá Barnaverndarráði: „Viðbótarbygging er langt komin og verður tekin í notkun með haustinu. Fást þar leikstofur og húsnæði fyrir starfsfólk.“ Sú varð ekki raunin. Viðbótarbyggingin var tekin undir sérherbergi fyrir syni forstöðuhjónanna og sparistofu.

Sumarið 1970 var búið að byggja annað upptökuheimili á jörðinni. Í október 1970 biður Kristján um aukna fjárveitingu fyrir nýja húsið:

„...Fjárveitingarnefnd Alþingis hefur áður veitt mér styrk á fjárlögum, sem skylt er að þakka. Á þessu ári var mér veittur styrkur að fjárhæð kr. 75.000.00, en vegna mikilla útgjalda við að opna síðara heimilið er mér mjög mikil nauðsyn á að fá styrkinn hækkaðan í umbeðna fjárhæð... fer þess hér með á leit við fjárveitingarnefnd hæstvirts Alþingis að mér verði veittur styrkur á fjárlögum ársins 1971 að upphæð kr. 200.000.00 vegna stofnkostnaðar og reksturs barnaheimilisins í Kumbaravogi."

Í dag er verðgildi 75 þúsund króna u.þ.b. 4,5 milljónir og verðgildi 200 þúsund króna er í kringum 12 milljónir. Allverulegar peningaupphæðir virðast hafa gengið til Kumbaravogsheimilisins í nafni meðlaga, hjálparkennslu- og húsbyggingastyrkja, fata- og peningagjafa

Hvort einstakir prestar safnaðarins hafi makað krókinn á þessu peningaplokki skal ég látið ósagt um. Ekkert veit ég um það. En ég hef grun um að þeir hafi fjármagnað trúboð sitt og trúarstarfssemi um landið og kostað ferðir og uppihald farandspredikaranna sem sumir komu frá Bretlandi og Bandaríkjunum á þessum tíma.

Mín skoðun er sú, að sleppa eigi börnum innan 18 ára aldurs við alla trúarinnrætingu og vist meðal trúaðs fólks. Frásagnir þessar styðja enn betur þá sannfæringu mína.

 

 


mbl.is Barnaníðingur yfirheyrður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Á íslandi er skyldunám í lögum.Réttindi eru fylgifiskur skyldu.Sem þýðir að öll börn hafa réttindi til náms í skólum á vegum ríkisins sem hafa það í heiðri að kenna þeim það sem sannast reynist og viðurkennt af samtímanum en ekki troða í þau hindurvitnum og trú á ósaaanlega hluti.Það á sjálfsögðu ekki að leyfa skóla sem reknir eru af trúarsamtökum.Árið er 2013.

Jósef Smári Ásmundsson, 8.1.2013 kl. 09:48

2 Smámynd: Sigurður Rósant

Í líffræðitímum var sérstaklega lögð áhersla á að þróunarkenning Darwins væri út í hött og fór mikill tími í það, aftur og aftur að undirstrika það við hin ýmsu tækifæri.

Skólastjórinn, Jón Hjörleifur Jónsson, sagði okkur m.a. reynslusögu af sjálfum sér, er hann eitt sinn fékk sér göngutúr að morgni niður að veg um 400 metra spotta og til baka. Skyndilega fann hann sem hendi væri þrýst á brjóst sér svo hann vart gat dregið andann og gat ekki haldið áfram för sinni. Bað hann þá til Guðs síns og sagði: "Hingað og ekki lengra, vík burt frá mér, Satan". Var þá sem þrýstingurinn hyrfi umsvifalaust og hann gat haldið áfram göngu sinni. Þessa sögu sagði hann okkur sem dæmi um hve bæn réttláts manns megnaði mikils.

Að öðru leyti bar ég mikla virðingu fyrir Jóni og fannst mér hann glæsilegur maður og einn þeirra sem hægt væri að taka sér til fyrirmyndar að mörgu leyti.

Fleiri sögur voru okkur sagðar, mig minnir aðallega af Jóni. Oft voru þær á þann veg að ekki borgaði sig að draga það um of að "gera Jesúm að leiðtoga lífs síns", því á morgun gæti það orðið of seint. Nefndi hann dæmi um farþega flugvélar sem flaug frá Vestmannaeyjum áleiðis til Reykjavíkur og hafði sá dregið það að "láta skírast". Jón sagðist hafa heyrt flugvélina fljúga yfir Hlíðardalsskóla og síðan þagnaði vélarhljóðið yfir heiðinni. Síðar frétti hann að flugvélin hefði farist og þessi tiltekni farþegi hefði látið lífið.

Að segja óhörðnuðum unglingum slíkar sögur í því skyni að fá þá til að gerast trúskiptingar eða láta skírast niðurdýfingarskírn að hætti Sjöunda Dags Aðventista, er nokkuð sem ætti að hlífa unglingum við fram að 18 ára aldri að mínu viti. Setja ætti ákvæði í Barnaverndarlög sem banna foreldrum og uppeldisstofnunum að innræta börnum sínum og annarra, eigin trú eða trúarsannfæringu. Ákvæði 63. gr. stjórnarskrárinnar ætti ekki að heimila trúuðum né trúlausum að innræta börnum sínum eða börnum annarra sannfæringu sína að eigin vild, eins og ákvæðið gefur augljóslega heimild til:

Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.

Þetta ákvæði er ljóður á stjórnarskrám allt of margra þjóða og ætti að afnema þetta frelsi trúaðra til að haga sér að eigin geðþótta í nafni trúar eða trúleysis.

Sigurður Rósant, 8.1.2013 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband