20.3.2017 | 15:34
Enn fækkar kristnum í 35 söfnuðum þeirra.
Hagstofa Íslands birti tölur yfir fjölda meðlima í trú- og lífsskoðunarfélögum í dag, 20.03.2017.
Þar kemur m.a. fram að kristnum fækkar enn á Íslandi miðað við tölur 35 skráðra safnaða þeirra á Íslandi, eða úr 83,2% niður í 82%.
Hópurinn Önnur trúfélög og ótilgreint stækkar mest eða um 4.662 einstaklinga og er nú orðinn 9% þjóðarinnar.
Hópurinn Utan trú- og lífsskoðunarfélaga stækkar næst mest eða um 1.298 manns og er nú orðinn 6,1%
Ásatrúarmönnum hefur fjölgað um 400 frá því í fyrra og eru nú 1,1% mannfjöldans.
Meðlimum í Siðmennt hefur einnig fjölgað um 333 og eru nú um 0,5% mannfjöldans.
Zúistum fækkaði um 242 og eru nú 2.845 meðlimir þar.
Meðlimum 2ja skráðra múslimasamfélaga hefur fjölgað um 85 frá því í fyrra og eru nú 0,3% landsmanna.
Meðlimum í þremur Búddistasamfélögum hefur fjölgað um 15.
Meðlimum Baháísafnaðar fækkar um 2 og eru nú 363, eða um 0,1% mannfjöldans.
Og í lokin má sjá samantekt um meðlimafjölda trúsafnaða og annarra samanburðarhópa.
Menn geta svo leikið sér með tölur eins og t.d. að margfalda fjölda greiðenda sóknargjalda hvers safnaðar
fyrir sig með 10.800 og fá þannig út hve mikið hver söfnuður fær árlega frá ríkinu.
Bætt við 28.10.2017
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 1.12.2017 kl. 16:57 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir fróðleikinn, Sigurður Rósant. Þessi stóri hópur þarna: Önnur trúfélög og ótilgreint (9,2%), gæti nú reyndar innihaldið marga kristna, ekki sízt meðal þeirra EES-landa-manna sem eru hér í vinnu eða námi. Ég veit t.d. að vanhöd eru mikil á því, að Pólverjar komi fram í trúfélags-skráningu, gæti verið vegna þess að þeir álíti að þá verði þeir frekar að standa undir einhverjum útgjöldum.
Ef 8 af þessum 9,2% eru kristið fólk, er það í heild komið upp í 90%.
Jón Valur Jensson, 20.3.2017 kl. 17:07
... vanhöld ...
Jón Valur Jensson, 20.3.2017 kl. 17:08
Já, það er ómögulegt að átta sig á því hvaða hug fólk ber til þess hóps sem það er skráð í. Hef grun um, eins og þú, að margir af þessum 9,2% og jafnvel í 6,1% hópnum geti verið einhverrar trúar.
Eins gæti maður ályktað sem svo að innan 82% hópsins sé 90% þeirra algjörlega trúlausir. Viðhorfakannanir eru komnar svo stutt í þessum málum og þöggun er mikil - ja, um allan heim, vildi ég segja.
En ég vona að fleiri hafi gagn og gaman af því að sjá þessar tölur settar upp í kökurit. Þau segja oft mikið meira en margliðaðar töflur eða línurit.
Sigurður Rósant, 20.3.2017 kl. 17:55
Að mínu mati ætti að vera ólöglegt að halda skrá yfir trúarskoðanir fólks. Þessar upplýsingar er hægt að misnota með ýmsum hætti. Segjum, til dæmis, að biskup í einhverjum söfnuði sé staðinn að því að misnota konur eða börn. Í kjölfarið skráir ákveðinn fjöldi af fólki sig út úr þeim tiltekna söfnuði. Með því að keyra saman eldri skrá og nýja skrá er hægt að fá lista yfir hverjir það eru sem skráðu sig úr söfnuðnum vegna þessara tilteknu frétta. Þannig er hægt að flokka skoðanir fólksins. Þjóðskráin er seld aðilum út í bæ, og maður getur einnig hugsað sér það að klárir hakkarar geti komist í hana og aflað þannig gagna fyrir erlend ríki.
Sveinn R. Pálsson, 20.3.2017 kl. 18:07
Ég held að enginn söfnuður hafi í raun og veru skrá yfir meðlimi fengna frá Hagstofu Íslands. Fámenn félög og fámennir söfnuðir geta hins vegar haldið einkaskrá sem þeir útbúa sjálfir með leyfi meðlimanna sjálfra.
Danir hafa þann háttinn á að þeir skrá einungis meðlimi Folkekirken (þjóðkirkju Dana), en skipta sér ekkert af meðlimaskráningu annarra trúsafnaða. Sveitarfélögin hafa kannski þann háttinn á að krefjast meðlimaskráningar til þess að geta ákveðið upphæð styrkveitinga fyrir trúfélög sem sinna menningarstarfi, tómstundastarfi og öðru félagsstarfi í samræmi við umfang starfseminnar?
En nú á tímum tölvugagnaleka er ekkert öruggt í þessum efnum, svo sem.
Sigurður Rósant, 20.3.2017 kl. 18:45
Ríkið á ekki, að mínu mati, að skrásetja einstaklingana í trúfélög, eins og gert er í þjóðskrá. Þarna er verið að draga fólk í dilka, sem við eigum einmitt ekki að gera. Það geta alltaf komið upp aðstæður síðar, þar sem þetta gæti orðið að stórmáli. Þessi og þessi var skráður í þetta tiltekna trúfélag og þá er hægt að hundelta fólkið. Það hefur gerst í sögunni. Til dæmis í Júgóslavíu. Í Rúanda var skráð í þjóðskrá hvaða kynflokki hver og einn tilheyrði og það var ástæðan hinum hryllilegu þjóðarmorðum þar.
Sveinn R. Pálsson, 20.3.2017 kl. 20:53
Ef Kaþólikkar vilja t.d. drepa einhverja hópa manna, þá er bara að bjóða þeim til fagnaðar eða í átveislu og ganga frá þeim eins og þeir gerðu á heilögum Bartólmeusardegi 24. ágúst til 3. október 1572, við Húgenotta í París.
https://en.wikipedia.org/wiki/Huguenots#St._Bartholomew.27s_Day_massacre
Sigurður Rósant, 20.3.2017 kl. 21:50
Já, þetta er hræðilegt rugl, þegar menn eru að aðgreina sig með þessum hætti. Þarna var um að ræða kristna hópa, sem eru með einhverjar mismunandi túlkanir. Tóm vitleysa allt saman.
Sveinn R. Pálsson, 20.3.2017 kl. 23:47
Þessi skráning, þá spaugileg sé, er auðvitað vita marklaus sökum þess að hún er að megninu til byggð á mygluðum ávöxtum vélskráningarþjónustu ríkisins. Fyrir þá sem ekki þekkja, þá tíðkaðist það, þar til fyrir stuttu síðan, að nýfædd börn voru skráð í trúfélag móður. Í vélrænu og andlausu ferli, sem líklega var hannað af Jesúsi Jósepssyni í denn, skráði ríkið ómálga og ósjálfbjarga reifabörn í trúfélag móður. Vélskráningarapparatið var eins og risavaxin þreskivél sem fór yfir akurinn og gleypti allt í sig sem á vegi þess varð. Hinn skráði var máské spurður, en sökum aldurs og vitsmunabrests var hann ekki í standi til að svara játandi eða neitandi. Samþykkið var s.s. ætlað. Þetta ógeðfellda fyrirkomulag var uppkokkað til þess að reyna að tryggja Ríkiskirkjunni fjármögnun til framtíðar. Hið ótrúlega í stöðunni er að þrátt fyrir þetta skuli hlutur Ríkiskirkjunnar kominn niður fyrir 70% og heldur áfram að falla. Sú staðreynd hlýtur að teljast pínlega vandræðaleg fyrir Ríkiskirkjuna sem hefur notað fádæma forréttinda í öllum málum, en án árangurs til lengri tíma.
Í gegnum tíðina hafa málpípur himnatríósins þurft að aðlaga málflutning sinn árlega að nýjum veruleika. Árið 1998 galaði málpípan að 89,91% þjóðarinnar væri skráð í Ríkiskirkjuna, árið 2007 vældi málpípan að nú væru 82,04% þjóðarinnar í Ríkiskirkjunni og aldrei hefði hún verið þróttmeiri. Í ár snöktir málpípan, segir að 69,98% þjóðarinnar séu skráð í Ríkiskirkjuna, en ef öðrum tölum er bætt við sé auðveldlega hægt að hækka þessa fallandi staðtölu.
Það sem málpípan veit er að nú fer kerfið að hætta að virka eins og því var ætlað. Fyrir það fyrsta er nýfætt barn ekki vélskráð í trúfélag nema báðir foreldrar séu í það skráðir. Líkurnar á því minnka með hverju árinu. Síðan er hitt að nú tilheyra hreinlega færri Ríkiskirkjunni (hvort sem þeir eru trúaðir eða ekki, skráninng í þjóðskrá segir ekkert um trú fólks) og því munu æ færri börn verða mekanískt skráð í hana. Og þegar það gerist verður þetta ferli æ hraðara og hraðara.
Ég veðja á að málpípan, nenni hún enn að standa í þessu svekkelsins stappi, munu þurfa að kvaka um að 55% þjóðarinar (í besta falli) verði skráð í Ríkiskirkjuna árið 2027. Það sést nefnilega á grafinu hér undir að þrátt fyrir að Íslendingum fjölgi umtalsvert fækkar í Ríkiskirkjunni og sést það best á rauða svæðinu sem stækkar með hverju árinu sem líður. Versta þróunin, fyrir Ríkiskirkjuna, er bláa línan sem sýnir nýliðun barna (vélskráningartrúboðið) sem ekki hafa sjálfsforræði. Æ færri nýburar munu í framtíðinni verða vélskráðir í Ríkiskirkjuna vegna þess að æ færri foreldrar játa Hagstofukristna trú.
Það blæs ekki byrlega fyrir Ríkiskirkjuna. Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að meintir félagsmenn hennar vilja ekki borga félagsgjöldin og þeir hafa bersýnilega ekki nennt að skrá börn sín í hana. Í mínum huga er aðeins eitt ráð eftir og það er að setja í lög skylduskráningu allra barna í Ríkiskirkjuna. Þetta kerfi lauslegrar vélskráningar og undankomuleiða er ekki að virka. Ef þjóðin á ekki að enda á sorphaugum sögunnar verður að bregðast við með afgerandi hætti.
Óli Jón, 21.3.2017 kl. 10:28
Þjóðkirkja er augljóslega að syngja sitt síðasta, hvort heldur sem er hér á landi eða í nágrannalöndum okkar. Sömu sögu má segja frá Noregi, Svíþjóð og Danmörku a.m.k.
Lætur nærri að um 1,5% fækkun sé á miðlimum þeirra á hverju ári, svo það er ekki ólíklegt að meðlimafjöldinn verði kominn niður í 55 eða jafnvel niður í 50% eftir svona 10 ár, eins og þú spáir, Óli Jón.
En við verðum líka að hafa það í huga að Þjóðkirkjan er ekki ein um það að hljóta stuðning ríkisvaldsins. Önnur trúfélög gera það líka í formi sóknargjalda og sveitarfélögin styrkja þau einnig í nágrannalöndum okkar, þ.e. einnig í þeim tilvikum sem þau stofna einkaskóla fyrir börn á grunnskólaaldri til þess eins að forða börnunum frá heiðingjum, vantrúa eða trúleysingjum eins og þau gjarnan vilja kalla þá sem ekki eru í sama trúfélagi og þau sjálf.
Sveitarfélög á Íslandi hafa þann háttinn á að veita trúfélögum lóð undir tilbeiðsluhús án endurgjalds. En neita þeim um lóðir sem t.d. ekki vilja gefa saman samkynhneigð pör. Múslimar hljóta samt lóðir án endurgjalds, enda geta þeir fullyrt að engin brúðkaup fari fram í moskum þeirra.
Sveitarfélög í Svíþjóð og Noregi selja lóðir undir tilbeiðsluhús trúfélaga, en styrkja starfsemina á annan máta í hlutfalli við fjölda einstaklinga í söfnuðunum.
Svo það er ástæðulaust í mínum huga að veitast að Þjóðkirkjunni einni með skammarorðum, Óli Jón. Flest öll trúfélög eru þess eðlis að þau vilja einangra meðlimi frá samfélaginu á einn eða annan máta, og brjóta þannig siðferðislega og lagalega á blásaklausum almúganum. Oftar en ekki eru þar á ferðinni gróf mannréttindabrot, eins og við lítum á þau í dag.
Sigurður Rósant, 21.3.2017 kl. 12:18
Sigurður: Ríkiskirkjan er ástæðan fyrir þessu vonda kerfi sökum þess að það hefur alltaf þurft að halda í henni lífi því fólkið sem í hana hefur verið skráð í gegnum tíðina hefur ekki nennt að hafa sjálft fyrir skráningunni né borga félagsgjöldin. Það er hið hana að sakast og því tala ég gegn henni sérstaklega. Þegar hún verður komin í eðlilega stærð, 10-15%, þá hættir andófið :)
Óli Jón, 21.3.2017 kl. 15:59
Óli Björn: Fyrir nákvæmlega ári síðan birtir þú þessa mynd á http://olijon.blog.is/blog/olijon/entry/2167639/
Hvernig skýrir þú þessa aukningu á múslimum, þ.e. úr 0,3% eins og þeir teljast vera í dag skv. Hagstofu Íslands og svo könnun Útvarps Sögu, upp í 5,3%, eða hvorki meira né minna en 17.932 múslimar af heildinni sem er skv. Hagstofu Íslands í dag 338.349?
Og Ásatrú rýkur skyndileg úr 1,1% og upp í 2,3%? Búddatrú er nokkuð nærri lagi, úr 0,4% upp í 0,66% en svo vantar alveg tvo hópa, þ.e Súsista og Siðmennt. Álfatrú eða Spíritismi er heldur ekki með í könnuninni. Hráslagaleg vinnubrögð, að mínu mati.
Finnst þér, svona í alvöru, þessi skoðanakönnun marktæk?
Sigurður Rósant, 22.3.2017 kl. 00:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.