23.8.2009 | 09:08
Snúa sólarhringnum við í 30 daga
Það er ekki einfalt að vera múslimur á norðurslóðum þetta og næstu árin. Ramadan föstumánuðurinn sem byrjar að þessu sinni 22. ágúst og stendur til 19. september, færist svo fram um 10 daga á hverju ári þannig að árið 2016 verður föstumánuðurinn kominn að miðju sumri þegar svo til enginn tími verður fyrir múslima að nærast, reykja og stunda sitt kynlíf.
Þegar þannig verður þrengt að þeim muslimum sem vinna fullan vinnudag 5 daga vikunnar, fæ ég ekki betur séð en að þeir neyðist til að gefast upp á þessari 'sýndardyggð' og finna leiðir til að svindla á þessari áþján í heilan mánuð þegar sólin neitar að setjast. Þeir geta að vísu tekið sig upp og ferðast til suðlægari landa þar sem sólin sest á þeim tíma sem Múhameð spámaður vandist ásamt með sínum fylgjendum, en launamaður á venjulegum lágmarkslaunum sem býr við Heimskautsbaug með Icesave greiðslubyrði á herðum sér, hefur ekki ráð á slíku.
Ég get ekki séð að það sé neitt sérstaklega heilsusamlegt við svona föstumánuð um mitt sumar á norðurhjara veraldar. Konur, börn og sjúklingar eru að vísu með einhverjar undanþágur gagnvart þessum kvöðum, en margir pína sig til að þóknast vinum og ættingjum eins og þeir mögulega geta.
Menn nærast þá aðeins einu sinni á sólarhring, skella sér í svefninn, vakna til vinnu og eru meira og minna án einbeitingar þegar líður á vinnudaginn. Eftir vinnu verða þeir að bíða eða jafnvel sofa þar til sólin sest um miðnætti og byrja aftur á sama ferlinu. Getur svona umsnúningur virkilega verið heilsusamlegur?
En kannski verða þessar kvaðir til þess að múslimar flytjast úr landi og til þeirra landa þar sem sólin sest fyrr. Komi svo til baka þegar Ramadan er yfir vetrarmánuðina. Þá er gott að vera norðarlega, helst norðan Heimskautsbaugs. Vera má að mér skjátlist og Íslendingar skrái sig unnvörpum í samfélög múslima einmitt árið 2016 þegar föstumánuðurinn byrjar 6. júní og endar 5. júlí.
![]() |
Íslenskir múslimar hefja föstumánuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Hin hliðin er svo sú að fólk sinnir illa vinnu sinni vegna orkuleysis og börnunum gengur illa í skóla og íþróttum af sömu ástæðu.
Það væri etv hægt að horfa í gegnum fingur sér ef þetta væru eingöngu fullorðnir sem föstuðu en börnunum er kennt að þetta sé af trúarlegum ástæðum og þau annaðhvort dragast aftur úr í námi eða allt skólakerfið verður að hægja á sér í kringum föstumánuðinn, ramadan.
Ástandið er nógu slæmt í mið evrópu þar sem er þó þokkalegt veðurfar en hér á Íslandi kemst fólk illa upp með að næra sig ekki stærstan hluta sólarhringsins án þess að það bitni á afköstum þess og bara tímaspursmál hvenær fyrsta slysið verður.
Spurningin er hversu langt á að ganga í umburðalindinu, því kröfurnar eiga eftir að verða gerðar á Íslandi eins og annars staðar, að próf í skólum og íþróttaviðburðir verði færðir til ásamt öðru til að orkulítil og sveltandi ungmenni í nafni guðs síns, geti tekið þátt í starfi jafnaldra sinna.Fransman (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 10:02
Mér virðist sem svo að Vestræn samfélög sem byggja á kristnum viðhorfum, áþekkum stjórnarskrám og sömu mannréttindasáttmálum, eigi erfitt með að banna eða draga úr áhrifum og afleiðingum þessa föstusiðar.
Að því er ég get best ímyndað mér, þá er ein leiðin að nálgast þennan vanda með því að einblína á rétt barna til að vera laus við trúarinnrætingu frá blautu barnsbeini og til fullorðinsára.
Okkur þykir öllum sjálfsagt að börn sleppi við að horfa á foreldra sína ganga örna sinna eða fullnægja kynhvötum sínum. Að sama skapi mætti það teljast sjálfsagt að börn þurfi ekki að horfa upp á foreldra sína biðja morgunbæna, kirja að hætti Búddista, fara með borðbæn að hætti S.D. Aðventista, lesa vers úr Kóraninum að hætti múslima, taka þátt í skringilegum siðvenjum Gyðinga, Hindúa eða annarra enn eldri trúarbragða.
Ef ákvæði sem tryggja þannig rétt barna, yrði sett inn í mannréttindasáttmála og síðar í lög samfélaga, mætti hnika aðeins til stjórnaskrárákvæðum svo réttur barna yrði framvegis ótvíræður. Hugsanlega eru líka til aðrar leiðir, en þetta er sú leið sem ég sé út úr þeim vanda sem Vestræn samfélög standa gagnvart þessa dagana.
Sigurður Rósant, 23.8.2009 kl. 13:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.